Vistkerafæði

Í dag eru loftslagsmál mörgum ofarlega í huga og margir að huga að því hvernig megi stuðla að umhverfisvænni lífsvenjum. Þá kemur matur oft til tals en maturinn sem að við borðum hefur ekki bara áhrif á heilsu okkar heldur einnig á plánetuna okkar. Það hvernig maturinn er framleiddur hefur áhrif sem og hversu mikið magn matar fer til spillis.  Í dag tekur landbúnaður næstum 40% af jarðvegi á heimsvísu og er matvælaframleiðsla ábyrg fyrir allt að 30% af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum og 70% af ferskvatnsnotkun.

Árið 2019 birti hópur vísindamanna (EAT Lancet Comission) hugmynd að mataræði sem getur fætt alla heimsbyggðina árið 2050 ásamt því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka líkur á ýmsum lífstílssjúkdómum. Mataræðið kallast „vistkeramataræði“ og minnir á Miðjarðarhafsmataræði en með ennþá meiri áherslu á jurtafæði. Fæðið er heilsusamlegt og sjálfbært bæði fyrir fólk og plánetuna. Það að fara frá óheilbrigðu mataræði yfir í heilbrigðara fæði er talið geta komið í veg fyrir 11 milljón ótímabær dauðsföll ásamt því að stuðla að sjálfbæru alþjóðlegu matvælakerfi innan marka plánetunnar.

Mataræðið er þannig að mælt er með að auka neyslu á ýmsum ávöxtum, grænmeti, baunum, hnetum og belgjurtum og hafa mjólkurvörur og kjötskammta litla. Þá er það ekki endilega spurning um allt eða ekkert heldur að gera litlar breytingar á mataræðinu sem hafa mikil áhrif.

Þá eru hér nokkur ráð sem Lancet mælir með að tileinka sér fyrir vistvænni matarvenjur:

  • Veldu plöntur sem próteingjafa – Hafa það sem markmið að neyta að minnsta kosti 125 g af baunum, linsum, ertum og öðrum hnetum eða belgjurtum á dag.
  • Dragðu úr kjötneyslu – Stefndu að því að borða ekki meira en 98 grömm af rauðu kjöti (svínakjöti, nautakjöti og lambakjöti), 203 grömm af fuglakjöti og 196 grömm af fiski á viku.
  • Borðaðu mat í hófi – Deildu máltíðum með fjölskyldu og vinum og veldu hæfilega skammta en það minnkar líkurnar á að við borðum meira en við þurfum.
  • Styðja við vistvæna búskaparhætti – Slík tegund búskapar stuðlar að kolefnisgeymslu í jarðvegi, heldur mengunarefnum frá vatni og stuðlar að staðbundnum líffræðilegum fjölbreytileika.
  • Skipuleggðu vikuna framundan. Skipuleggðu matseðla fyrir vikuna til að tryggja fjölbreytta gómsæta rétti og verslaðu samkvæmt þeim. Þetta mun bæði spara tíma, peninga og hjálpa til við að draga úr sóun.
  • Eldaðu meira heima. Að elda og undirbúa mat heima gefur tækifæri fyrir notalegan samverutíma með fjölskyldunni. Það verður einnig til þess að uppskriftir flytjast á milli kynslóða og matarhefðir viðhaldast.
  • Dragðu úr matarsóun – Að geyma afganga í ísskápnum og jafnvel nota þá í nýjar skapandi uppskriftir er gott fyrir plánetuna og sparar þar að auki pening. Með minni matarsóun þarf að framleiða minni mat til að fæða heiminn og því gott fyrir jörðina.

Með þessum breytingum má fikra sig nær umhverfisvænum matarvenjum og stuðla að bættri eigin heilsu í leiðinni. Gott er að tileinka sér þessi ráð smátt og smátt og koma þeim þannig inn í daglegar venjur, en litlar breytingar geta haft mikil áhrif.

Grein skrifuð af Guðrúnu Nönnu Egilsdóttur, meistaranema í næringarfræði við Háskóla Íslands

Heimild: Lancet commission brief for everyone. EAT. (2020, May 18). Sótt 16 febrúar, 2023, af https://eatforum.org/lancet-commission/eatinghealthyandsustainable/