Áhrif fjölbreytts mataræðis á heilsu og þarmaflóru

Starfsemi mannslíkamans er flókin og margþætt og þarfnast líkaminn margra ólíkra næringarefna til að viðhalda þeirri starfsemi. Þessi mismunandi næringarefni fáum við úr fæðunni og skiptast þau annars vegar í orkuefni sem eru í formi próteins, fitu og kolvetna og hins vegar í vítamín, stein- og snefilefni. 

Þarmaflóran okkar verður fyrir áhrifum frá umhverfinu vegna þess að meltingarvegur kemst í snertingu við ytra umhverfi líkt og húð og lungu. Mataræði er einn af lykilþáttunum sem hafa áhrif á samsetningu örvera í þörmunum og hjálpa trefjar í matvælum til við að viðhalda jákvæðu og fjölbreyttu samfélagi þeirra í þörmunum. 

Það sem við borðum frá degi til dags hefur áhrif á örverurnar í meltingarvegi okkar en þær nærast á þeirri fæðu sem við neytum. Það að velja fjölbreytt og trefjaríkt fæði hefur jákvæð áhrif á hvaða örverur dafna best og kemur um leið í veg fyrir röskun á örveruflóru. Besta leiðin til að viðhalda heilbrigðri þarmaflóru er að borða fjölbreytt úrval af ferskum, heilum fæðutegundum, aðallega úr jurtaríkinu.

The gut health doctor hefur hún sett fram þessi 6 ráð sem gott er að tileinka sér fyrir heilbrigða þarmaflóru:

  1. Borðaðu aðallega plöntur – Byggðu máltíðir þínar og snarl að mestu á plöntum, allt frá grænmeti og belgjurta til hneta og fræja.
  2. Veldu fjölbreytt matvæli – Veldu fjölbreytt plöntumatvæli og mismunandi liti. Veldu til að mynda heilkorn, ávexti, grænmeti, hnetur og fræ, belgjurtir, kryddjurtir og krydd.
  3. Veldu heil óunnin matvæli – Veldu heil plöntumatvæli sem eru lítið unnin. Þetta gefur þér bæði meira af næringarefnum og dregur á sama tíma úr matarsóun.
  4. Bættu við í stað þess að taka út – Gleymdu megrunarkúrum, í staðinn skaltu einblína á það sem þú vilt bæta við inn í mataræðið þitt, í stað þess að vera alltaf að taka út. Það getur umbreytt sambandi þínu við mat, sem er öflugra en margir halda.
  5. Staldraðu við og njóttu – Ertu vanur/vön að borða við skrifborðið þitt eða grípa bita á milli húsverka? Reyndu að gefa þér tíma til að sitja og virkilega njóta matarins.
  6. Ræktaðu sambönd – Reyndu að borða með vinum, fjölskyldu eða þeim sem eru í kringum þig hverju sinni. Líttu á hverja máltíð sem tækifæri til að deila, tengjast og læra. 

Grein skrifuð af Guðrúnu Nönnu Egilsdóttur, meistaranema í næringarfræði við Háskóla Íslands