Mikilvægi D-vítamíns 

D-vítamín er fituleysanlegt vítamín sem myndast í húð við útfjólubláa geisla sólar en fæst þar að auki úr fæðu eins og feitum fisk og D-vítamín bættum vörum. D-vítamín gegnir ýmsum mikilvægum hlutverkum í líkamanum en það stjórnar til að mynda kalkbúskap líkamans. Það örvar frásog kalks í meltingarvegi og stuðlar að eðlilegum kalkstyrk í blóði og er því nauðsynlegt þegar að kemur að uppbyggingu beina.  

Dæmi um fæðu sem inniheldur D-vítamín er til að mynda lýsi, lax, silungur, síld og eggjarauða. Drykkjarmjólk er einnig gjarnan D-vítamínbætt ásamt stoðmjólk, ungbarnablöndum, sumum barnagrautum og einhverjum tegunda jurtaolía og smjörlíka. 

Á vetrarmánuðum þegar að sólarljós er af skornum skammti hér á landi er sérstaklega mikilvægt að huga að D-vítamín inntöku en þó einnig á sumrin ef að sólarvörn er notuð. Þar sem erfitt getur reynst að fá ráðlagðan dagskammt einungis úr fæðunni er öllum ráðlagt að taka inn D-vítamín daglega á formi bætiefna hvort sem það er lýsi eða D-vítamíntöflur.  

Ráðlagður dagsskammtur fyrir börn yngri en 10 ára er 10 míkrógrömm (400 IU) daglega.  

Fyrir einstaklinga á aldrinum 10-70 ára er ráðlagður dagsskammtur 15 míkrógrömm (600 IU) og einstaklingar eldri en 70 ára ættu að fá 20 míkrógrömm (800 IU) á dag.  

Niðurstöður nýjustu landskönnunar á mataræði Íslendinga 2019-2021 leiddu í ljós að tæplega helmingur þátttakenda náði ekki ráðlögðum dagskammti af D-vítamíni. Afar mikilvægt er að hafa nægan D-vítamín búskap en D-vítamínskortur getur til að mynda leitt til mjúkra kalklítilla beina hjá fullorðnum og öldruðum. D-vítamínskortur hjá börnum getur svo leitt til beinkramar en þá geta bein í fótleggjum bognað og rifbein svignað. 

Við val á fæðubótarefnum skal þó hafa í huga að margar gerðir af D-vítamín bætiefnum eru í sölu og skal ávalt gæta þess að skoða magn D-vítamíns í þeim svo ekki sé farið yfir efri mörk öruggrar neyslu. Ef styrkur D-vítamíns í blóði verður of hár getur það leitt til klínískra einkenna eins og vöðvaslappleika, þreytu, ógleði, uppkasta, hægðartregðu og hjartsláttatruflana. Ef viðvarandi hækkun er á kalsíum í blóði getur það svo leitt til myndunar nýrnasteina og skertrar nýrnastarfsemar. Viðmiðunargildi efri marka fyrir fullorðna og börn eldri en 11 ára eru 100 µg á dag (4000 AE). Fyrir börn 1-10 ára eru efri mörkin 50 µg (2000 AE), fyrir ungbörn 6-12 mánaða 35 µg (1400 AE) og 25  µg (1000 AE) fyrir ungbörn að hálfs árs aldri. 

Grein skrifuð af Guðrúnu Nönnu Egilsdóttur, meistaranema í næringarfræði við Háskóla Íslands

Heimild: 

Embætti Landlæknis (2022). Upplýsingar um D-vítamín. Sótt þann 7 febrúar 2023 af  https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/greinar/grein/item46425/Upplysingar-um-D-vitamin