Hefur þú séð fyrirsagnir um ofurfæðu eða superfoods?
Oft er djörfum fullyrðingum skellt með að þessar fæðutegundir innihaldi öll þau næringarefni sem við þurfum. Þetta á oftast við fæðutegundir sem innihalda mikið magn af einhverju næringarefni/næringarefnum sem talin eru góð fyrir heilsuna. Stundum er þessu skellt fram sem “10 hollustu fæðutegundirnar…”. Þessu hefur t.d. verið skellt fram um spínat, bláber, chiafræ, avocado, brokkolí, açai, goji ber, grænt te, lax o.fl.
Þessar fæðutegundir og fleiri innihalda vissulega mikið magn af næringarefnum sem eru nauðsynleg fyrir okkur og heilsuna.
Einhverjir gætu spurt sig “er eitthvað að því? Er ekki bara gott að vekja athygli fólks á því að borða meira af þessum “holla” mat?
Rannsóknir benda til þess að fjölbreytt mataræði sé almennt gott fyrir heilsuna og þá sérstaklega fjölbreytt mataræði sem er ríkt af afurðum úr jurtaríkinu eins og bent er á í nýjum norrænum næringarráðleggingum 2023.
Það eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar verið er að setja ákveðnar fæðutegundir á hærri stall.
Í fyrsta lagi er engin ein fæðutegund sem veitir okkur öll þau næringarefni sem við þurfum, ekki bara chiafræ eða bara bláber eða bara kjöt o.s.fv. Við þurfum fjölbreytta fæðu til að veita okkur fjölbreytt næringarefni sem við þurfum.
Í öðru lagi getur mjög mikil neysla á einni fæðutegund og þar með ákveðnum næringarefnum sem eru í miklu magni í þeirri vöru haft áhrif á upptöku á öðrum næringarefnum og þannig valdið skorti. Þetta getur t.d. átt við spínat þegar þess er neytt í mjög miklu magni. Spínat inniheldur oxalate sem bindur kalk og ef við neytum mjög mikið af því getur það haft áhrif á upptöku líkamans á kalki. En vert er að taka það fram að þetta á við ef þess er neytt í mjög miklu magni. En á tímabili þegar spínat var auglýst sem ofurfæða þá komu upp slík tilvik. Þetta getur einnig átt við um aðrar fæðutegundir og önnur næringarefni ef þeirra er neytt í mjög miklu magni.
Í þriðja lagi þá eru margar mismunandi fæðutegundir sem innihalda sömu næringarefni eða svipuð. Það er yfirleitt ekki þannig að bara þessi eina fæðutegund inniheldur þessi næringarefni í miklu magni. Ef skoðaðar eru næringarvenjur mismunandi þjóða í mismunandi heimshlutum er hægt að sjá að yfirleitt er hægt að finna eitthvað í nærumhverfi fólks sem veitir sömu eða svipuðu næringarefni og annað fólk fær annarsstaðar í heiminum.
Inn í þennan punkt kemur inn pólitík, umhverfismál o.fl. En markaðssetning ákveðinna fæðutegunda sem er kannski erfitt að rækta eða eru bara á ákveðnum svæðum í heiminum, teljast framandi og komið hefur í ljós að fólkið sem býr á þeim stöðum þar sem það er ræktað lifir kannski lengur. Þá eru Vesturlandabúar ólmir í að kaupa það til þess að bæta heilsu sína. En kannski er eitthvað í nærumhverfi okkar sem veitir okkur það sama. Þannig spila peningar inn í og geta þannig mögulega haft áhrif á heilsu þeirra sem lifðu á því úr nærumhverfi sínu áður. Svo við tölum nú ekki um flutninginn á vörunum á milli landa.
Við þreytumst ekki á sömu gömlu tuggunni með að borða fjölbreyttan mat til þess að fá fjölbreytt næringarefni.