Ingunn Ingvarsdóttir
Ingunn Ingvarsdóttir heiti ég og er einn af stofnendum og meðeigandi Meltingar & Vellíðunar. Ég er með B.Sc gráðu í næringarfræði (2016) og meistaragráðu í klínískri næringarfræði (2019). Ég hef starfað sem næringarfræðingur á Landspítala frá útskrift m.a. í átröskunarteymi fullorðinna og barna á geðsviði, endurhæfingardeildum á geðsviði, í áhættumæðravernd og á krabbameinsdeildum.
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á næringarfræði, en sá áhugi jókst til muna þegar nærkominn ættingi greindist með magakrabbamein. Þá ákvað ég að breyta um námsleið og skráði mig í næringarfræði, sem ég tel að hafi verið afar góð ákvörðun.
Sjálf er ég með viðkvæma meltingu og veit hversu mikil meltingareinkenni geta haft á lífsgæði. Ég hef þurft að gera breytingar í gegnum tíðina á mínu mataræði sem hefur gert það að verkum að í dag upplifi ég lítil sem engin slæm einkenni
Í meistaranáminu mínu lagði ég mikla áherslu á meltingu og gerði rannsókn sem tengist IBS og FODMAP mataræði og fékk þar að hjálpa einstaklingum að öðlast betra líf með breyttum venjum.
Það sem skiptir mig líka máli er að nálgast mat á hlutlausan hátt. Ég legg ekki áherslu á að flokka mat niður eða gera ákveðin mætvæli betri en önnur. Þarfir okkar eru nefnilega misjafnar og það sem skiptir máli er að við nærum okkur þannig okkur líði vel í takt við þarfir okkar og að við gefum okkur það svigrúm.
Ég brenn fyrir því að auka vellíðan einstaklinga sem eru með meltingarvandamál, átraskanir eða önnur næringartengd vandamál. Það sem er mikilvægt fyrir mig er að leiðbeina og styðja fólk í gegnum það ferli og þannig hjálpa því að upplifa meiri vellíðan og aukin lífsgæði með betri meltingu.
Thelma Rut Grímsdóttir
Thelma Rut Grímsdóttir heiti ég og er einn af stofnendum og meðeigandi Meltingar & Vellíðunar. Ég er með B.Sc í næringarfræði (2014) og meistaragráðu í klínískri næringarfræði (2017).
Ég hef víðtæka reynslu í næringarráðgjöf og starfa hjá Melting & Vellíðan við næringarráðgjöf, held námskeið og fyrirlestra fyrir einstaklinga, hópa, fyrirtæki og félög. Ég hef starfað sem næringarfræðingur á Landspítala (m.a. á krabbameinsdeildum, kviðarhols- og þvagfæraskurðdeild, geðsviði, sykursýkismóttöku) og Heilsustofnun NLFÍ.
Ég hef brennandi áhuga á mat og hvaða áhrif matur getur haft á líkama okkar og heilsu. Mér finnst mjög gaman að elda mat og finna leiðir til þess að gera bragðgóðar og næringarríkar máltíðir. Ég hef mikinn áhuga á þarmaflórunni, meltingu, matarhegðun og sambandi einstaklinga við mat.
Mér finnst mikilvægt að nálgast einstaklinga út frá þeirra þörfum og skoða næringuna heildstætt. Ég legg mikla áherslu á að auka fjölbreytni í mataræðinu frekar en að taka út heilu fæðuflokkana að óþörfu.
Það skiptir mig miklu máli að auka lífsgæði og vellíðan einstaklinga á skynsaman og heilbrigðan hátt.